Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Er Parkinson gleymdur ?

 

Árið 1959 kom út á Íslandi bókin Lögmál Parkinsons í þýðingu Vilmundar Jónssonar landlæknis.

Bókin vakti þá talsverða athygli og umtal. Höfundurinn  C. Northcote Parkinson setti fram athyglisverðar fullyrðingar sem hann rökstyður margar með tölfræði úr ensku þjóðlífi þess tíma

Fyrsta lögmál Parkinsons er að: Vinna þenst út þar til  hún fyllir út í tímann, sem gefst til að vinna hana.  Hann nefnir sem dæmi að gömul hefðarkona, sem hefur nægan tíma, getur eytt heilum degi í að skrifa og koma frá sér póstkorti til frændkonu sinnar. En maður í fullu starfi hefði hæglega lokið sama verki á þremur mínútum. Stjórnsýsla og skrifstofuvinna felur í sér margbreytileg verkefni sem hægt er að vinna á mismunandi hátt og verja til þess mismiklum tíma eftir atvikum. Það er því ekki hægt að ganga út frá því sem vísu að beint samband sé á milli verks sem inna á af hendi og fjölda starfsfólks sem þarf til að gera það.

Parkinson rökstyður kenningu sína með ýmsum dæmum.  Hér er ekki tækifæri til að rekja þau, né fleiri lögmál Parkinsons en þar kennir margra grasa og bókin er stórskemmtileg aflestrar. Það væri vel þess virði að gefa hana út aftur.

Þegar ég sá tillögu um fjölgun borgarfulltrúa Reykjavíkur í 23, datt mér í hug: Þeir hafa ekki lesið Parkinson.  Í bókinni er kafli sem  heitir : FORSTJÓRAR OG RÁÐ eða óvirknisstuðull.  Þar kemst Parkinson að þeirri niðurstöðu, að heillaríkastur fjöldi ráðherra í ríkisstjórn sé fimm.  Fimm mönnum er auðvelt að ná saman, og þegar þeir koma saman, er þeim unnt að starfa saman fullráða, gæta nauðsynlegs trúnaðar og með æskilegum hraða. Við fjölgun flyst valdið meira yfir í klíku innan hópsins.  Hann talar um annað, þriðja og fjórða þróunarstig eftir því sem ráðherrum fjölgar.  Í bókinni segir um fjórða stigið: Á þessu stigi ríkisstjórnarþróunar (20-22 ráðherrar) gerist á allri nefndinni hastarleg umbylting,  Auðvelt er að rekja og láta sér skiljast þessa breytingu. Í fyrsta lagi taka fimm ráðherranna, þeir sem máli skipta, að halda með sér fundi fyrirfram.   Þegar ákvarðanir hafa þegar verið teknar, er hlutverk ríkisstjórnar í heild orðið lítið.  Afleiðing þess er sú, að öll andstaða gegn fjölgun ráðherra hverfur.  Fleiri ráðherrar munu hér eftir ekki eyða meiri tíma, því að allir ráðuneytisfundir eru hvort sem er einber tímaeyðsla.  Um sinn er fullnægt kröfum hagsmunahópa, sem utan við standa, með því að veita viðtöku fulltrúum þeirra í ríkisstjórn.og áratugir geta liðið, þangað til fulltrúum þeirra skilst, hver blekking ávinningur þeirra hefur verið.

Parkinson birtir svo lista yfir ráðherrafjölda í 64 þjóðlöndum. Lægst eru Honduras, Ísland og Lúxemburg með 6 ráðherra.  Flest ríkin hafa 12-20 ráðherra.  Átta ríki hafa fleiri en 22 ráðherra, allt einræðisríki, Sovétríkin hæst með 38 ráðherra.  Hann segir: Freistandi er að draga af þessu þá almennu ályktun, að  ríkisstjórnir,  (og nefndir yfirleitt) skipaðar 21 ráðherra (nefndarmanni) séu á þeirri leið að glata valdi sínu og verði þær fjölmennari, hafi þær þegar glatað því.

Nú er  búið að samþykkja að borgarfulltrúar Reykjavíkur verði 23 í framtíðinni.  Það verður forvitnilegt að sjá hvernig stjórnun borgarinnar þróast þegar borgarstjórnin er komin yfir óvirknismarkið.

 

 


Um verðtryggingu sparifjár og lána

 Ég skrifaði þessa grein fyrir löngu síðan en hún á ekki síður við núna í allri þessari ruglumræðu um verðtryggð lán og afnám verðtryggingar.

Mig hefur lengi langað til að blanda mér í umræðu um verðtryggingu sparifjár og lána.  Ástæðan er sú, að mér hefur fundist umræðan vera á veikum grunni og ekki fjallað um hvað tæki við ef verðtryggingu væri hætt.  Heilu stjórnmálaflokkarnir hafa ályktað um þetta án þess að skilgreina nánar hvernig að því yrði staðið.  Margir virðast halda að greiðslubyrði heimilanna myndi stórlækka ef verðtrygging lána yrði  lögð niður.

 

Grein í Morgunblaðinu 7. ágúst s.l. eftir Þóru Guðmundsdóttur stjórnarmann í Neytendasamtökunum varð til þess að ég læt til skarar skríða.  Ég ætla ekki að rökræða við Þóru í þessari grein minni, heldur fjalla um málið á breiðari grunni af reynslu gamals bankamanns. Ég vil þó segja að grein Þóru lýsir mikilli vankunnáttu á efnahagsmálum og vantrausti á hagfræðingana, helstu efnahagssérfræðinga landsins.

 

Það er talsvert merkilegt að hugsa til þess, að sparifjáreigendur hafa aldrei átt málsvara á Íslandi.  Neytendasamtök, talsmaður neytenda, félagsmálaráðherrar svo dæmi séu nefnd telja sig alltaf vera talsmenn lántakenda en aldrei sparifjáreigenda.  Svona hefur þetta alla tíð verið.  Á árum áður þegar vextir voru lögbundnir var það glæpur að reyna að fá sanngjarna vexti fyrir sparifé sitt. „ Okrarar“ voru dæmdir í háar fjársektir og litnir hornauga í þjóðfélaginu. Í augum almennings var það miklu verra að vera okrari heldur en smyglari eða skattsvikari.  Í pressunni, sérstaklega í þeim blöðum sem kenndu sig við alþýðuna, virtist vera álitið að þeir sem ættu féð í bönkunum væru „grósserar“ eða kapítalistar.  Við sem unnum í bönkunum vissum mætavel að engum heilvita kapítalista datt í hug að eiga peninga.  Allir peningar sem þeir eignuðust fóru í fjárfestingu og galdurinn var að steypa sér í sem mestar óverðtryggðar skuldir og festa þá peninga í steinsteypu.  Flestir sparifjáreigendurnir voru fólk sem lifað hafði erfiða tíma og var að komast í álnir en treysti sér ekki í fjárfestingar.  Á þessum árum átti sér stað gríðarlegur eignatilflutningur frá hinum almenna sparifjáreiganda til þeirra sem sátu að kjötkötlunum og gátu náð sér í lánsfé.  Það var fyrst við útgáfu spariskírteina Ríkissjóðs að almenningi gafst kostur á að halda í við verðbólguna og fá sanngjarna ávöxtun á sparifé sitt.  Í kjölfarið fengu bankarnir leyfi til að bjóða verðtryggða reikninga og þá jafnframt að lána út á verðtryggðum kjörum. Húsnæðislán og lífeyrissjóðslán voru að sjálfsögðu jafnframt bundin verðtryggingu.  Þetta varð auðvitað gríðarlegt áfall fyrir lántakendur sem nú þurftu að greiða sannvirði fyrir lánin sem þeir tóku og ekki bætti úr skák að verðtrygging launa var felld niður um líkt leyti.  Þarna hafði dæmið snúist við, en samt var veigamikill munur á.  Verðmæti þeirrar eignar sem keypt var fyrir lánið hækkaði væntanlega í samræmi við almennar verðhækkanir  (stundum mun meira).  Báðir aðilar héldu sínum eignum.

 

Í grein Þóru Guðmundsdóttur sem ég minntist á í upphafi telur hún eðlilegt að lánveitandinn beri hluta áhættunnar við verðbreytingar.  Þetta er mjög röng hugsun.  Sparifjáreigandi sem vill ávaxta sitt fé án áhættu á að eiga kost á því gegn lágmarksvöxtum.  Svo eru aftur aðrir sem vilja taka þátt í áhættunni en þá gegn því að fá annað hvort hærri vexti af sínu fé eða hluta af hagnaðinum ef hann verður.

 

Alls staðar þar sem efnahagslíf er eðlilegt eru lánakjör í sjálfu sér verðtryggð.  Það heitir ekki verðtrygging, það er reiknað inn í vextina.  Markaðurinn gerir það sjálfkrafa.  Þar sem verðbólga er lítil er oft samið um fasta vexti til langs tíma en ef verðbólga eykst hækka vextir eðlilega.  Vafalaust verður vísitölubindingu lána hætt á Íslandi innan langs tíma, en greiðslubyrði lánanna mun ekki hrapa niður við það.  Eina leiðin til þess, er að ná niður verðbólgunni. Rétt er að benda á, að í mikilli verðbólgu hefur vísitöluálag á lán einn stóran kost fyrir lántakendur.  Verðbæturnar deilast niður á eftirstöðvarnar í stað þess að vextirnir reiknast oftast að fullu á gjalddaga.

 

Markmið mitt með þessari grein er fyrst og fremst að benda á að það leysir engan vanda fyrir skuldara að fella niður verðtryggingu lána við þær aðstæður sem nú ríkja.  Það þarf að ráðast að meininu sjálfu, verðbólgunni.  Ef tekst að ná henni nálægt núllinu er umræða um verðbætur orðin óþörf.  Ég man vel fyrri verðbólguár og vona að allir taki höndum saman um að forða okkur frá tveggja stafa verðbólgu í framtíðinni.  Sem betur fer eru stjórnvöld og aðilar vinnumarkaðarins þó orðin þroskaðri nú en þá, og munu ekki láta slíkt óréttlæti eiga sér stað sem þá fékk óáreitt að ræna fólk eignum sínum.

 


Á móti þjóðaratkvæðagreiðslum

Ég er andvígur þjóðaratkvæðagreiðslum. Ég vil að við veljum fólk sem við treystum til þess að setja sig inn í mál og taka skynsamlegar ákvarðanir eftir sinni bestu vitund fyrir okkar hönd. Fyrir þessari skoðun hef ég eftirfarandi rök:
• Fólk óttast oft róttækar breytingar og finnur sér mótrök sem oft eru léttvæg þegar á reynir. Til dæmis má nefna þegar ákveðið var að breyta úr vinstri í hægri umferð á Íslandi. Ég er sannfærður um að sú breyting hefði verið kolfelld í þjóðaratkvæðagreiðslu, sú var heiftin gegn þeirri breytingu. Annað dæmi er aðild að EES á sínum tíma. Þar hefði aðild mögulega verið felld þó að flestir telji nú það hafa verið happaspor.
• Oft eru spurningar í þjóðaratkvæðagreiðslum þannig að erfitt er að ráða í hver vilji kjósenda er. Er nóg að benda þar á væntanlega atkvæðagreiðslu um stjórnarskrá. Ég vil láta endurskoða núverandi stjórnarskrá en ég vil ekki binda hendur Alþingis í að breyta henni þar sem það er talið til bóta. Hvað á ég að kjósa ? Og hvernig verður atkvæði mitt túlkað af hinum ýmsu hópum ?
Ég studdi það að samið yrði um Icesave en samt greiddi ég atkvæði gegn samningnum af því að ég vissi að annar samningur var í burðarliðnum. Þetta atkvæði mitt var metið sem ég væri andvígur samningum.
Þegar spurt var: Viltu að flugvöllurinn fari úr Vatnsmýrinni, svaraði ég Já. Ég vildi að flugvöllurinn yrði fluttur úr Vatnsmýrinni og honum fundinn staður til dæmis á Hólmsheiði en ég vildi alls ekki að innanlandsflugið yrði flutt til Keflavíkur. Hvað átti ég að kjósa í þeirri skoðanakönnun ? Og eru menn vissir um að réttar ályktanir hafi verið dregnar af vilja kjósenda í þeirri könnun ?
• Því miður verður að segjast að umfjöllun fjölmiðla á þjóðmálum er ákaflega einsleit og ekki til þess fallin að gefa almenningi kost á að meta rök með og móti. Fólk hefur til dæmis skapað sér sýn á orsakir hrunsins útfrá mjög takmörkuðum upplýsingum og fjölmiðlar hafa lítið gert til að fylla upp í þá mynd með gagnrýninni umfjöllun. Við slíkar aðstæður eiga lýðskrumarar opið tækifæri til að stýra almenningsálitinu með yfirborðskenndum yfirlýsingum.

Um bloggið

Gunnar Már Hauksson

Höfundur

Gunnar Már Hauksson
Gunnar Már Hauksson
Gunnar Már er fyrrverandi bankamaður

Bloggvinir

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • ...2008_292

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband