Færsluflokkur: Fjármál

Íslenska krónan til blessunar eða bölvunar ?


Margir hafa blessað það að við skyldum hafa okkar eigin gjaldmiðil, krónuna, til þess að rétta við útflutningsatvinnuvegi  okkar eftir bankahrunið mikla.  Og rétt er það að leiðrétting gengisins hafði úrslitaáhrif  við endurreisn þjóðarskútunnar eftir hrunið.

En ég hef oft undrast hve lítið hefur verið rætt um forsöguna, hlutverk krónunnar í þeim miklu ógöngum sem þjóðin lenti í.  Gengi krónunnar var kolrangt, allt of hátt, og íslensk stjórnvöld réðu þar engu um.  Það voru “belgískir tannlæknar” sem keyptu jöklabréf og mikið innstreymi erlendra lána sem réðu genginu.  Útflutnings- og samkeppnisgreinar íslenskar voru á heljarþröm vegna rangs gengis.  Fyrirtæki eins og Marel og Promens reyndu svo mikið sem þau gátu að flytja framleiðslu sína til útlanda til að standast  samkeppni.

Það var ódýrt að taka erlend lán og enginn hugsaði um að gengið gæti verið annað þegar kom að skuldadögum.  Það var mikið lán fyrir almenning að lögfræðingar bankanna skyldu ekki hafa framsýni til að ganga þannig frá skjölum að lántakarnir  tækju lánin út í erlendum gjaldeyri og að bankarnir keyptu síðan  gjaldeyrinn af lántakanum.  Þá hefðu erlendu lánin verið lögleg.

Ég held að fleiri og fleiri geri sér ljóst að íslenska krónan er of lítil til þess að hún geti verið frjáls gjaldmiðill.  Spekúlantar hafa ógnað stærri myntkerfum.  Ég heyrði alþingismann segja í viðtali: “Krónan er í lagi ef annað er í lagi”, og meinti þá væntanlega að með réttri hagstjórn væri hægt að halda krónunni.  En það er því miður ekki þannig .  Krónan getur ekki verið frjáls úti á rúmsjó alþjóða fjármála  þar sem gráðugir hákarlar eru á sveimi.

Nú er það þannig að við höfum engan valkost í bráð annan en að lifa við okkar íslensku krónu, en hún verður að vera undir sterku aðhaldi.  Frjáls getur hún ekki verið.


Mátulegt á ICESAVE kúnnana ?

Margir hæðast að fólkinu sem lagði inn á Icesave-reikningana og segja að það hafi verið mátulegt á þau að tapa peningunum. Þau hefði átt að geta sagt sér það sjálft að svona háir vextir gætu ekki staðist. Þarna er talað eins og um áhættusöm verðbréfaviðskipti hafi verið að ræða, en svo er ekki. Útibú Landsbankans í London var sams konar útibú og á Akureyri og Ísafirði. Þeir varkáru sem ekki vilja taka áhættu leggja inn í banka og það á að vera nánast áhættulaust. Íslensku bankarnir fengu líka hæstu einkunn hjá matsfyrirtækjunum fram á síðasta dag.
Þeir sem kaupa verðbréf eða hlutabréf eru aðvaraðir (eða að minnsta kosti eiga að vera það) að um áhættufjárfestingu sé að ræða. En ef þú vilt ekki taka áhættu þá leggur þú peningana í banka. Það er því mjög ómaklegt að tala um þá sem settu fé sitt inn á ICESAVE reikningana sem einhverja gráðuga áhættuspilara. Það er ekki hægt að álasa þeim fyrir að velja banka sem býður hæstu ávöxtun á bankareikningi.

Að vera bankamaður

Starfsheitið bankamaður hefur að mínu mati haft nokkuð aðra merkingu heldur en til dæmis það að heita verslunarmaður. Fólk hefur að sumu leyti gert ríkari kröfur til bankastarfsmanna en til almennra þjónustufyrirtækja. Við ráðgjöf hefur verið ætlast til þess að bankamenn setji jafnvel hagsmuni viðskiptavinanna ofar hagsmunum bankans sjálfs og oft er ætlast til þess að bankamaðurinn hafi vit fyrir viðskiptavini sínum og passi upp á að hann fari ekki út í einhver ævintýri sem eru honum ofviða. Því miður hefur þessi mynd breyst undanfarið og með því hefur traust almennings til bankanna hrunið þannig að einungis 7% landsmanna treystir bankanum sínum. Ég hef ekki tölur frá fyrri árum, en er viss um að þá treysti yfirgnæfandi meirihluti landsmanna bankanum sínum. Ég man þó eftir könnun árið 2004 þegar ánægja viðskiptavina bankanna mældist 60 og yfir 70%.

Sagt er að upphaf bankastarfsemi megi rekja til gullsmiða sem fólk treysti til þess að geyma gull og silfur sem það átti umfram daglegar þarfir. Síðar fóru menn að nota kvittanir frá gullsmiðnum í viðskiptum í stað þess að sækja gullið til gullsmiðsins og greiða með því.
Slík viðskipti byggðust auðvitað á því að hinn aðilinn treysti því að gullsmiðurinn væri ábyggilegur og hægt væri að sækja til hans verðmætin þegar óskað væri.

Gullsmiðirnir fóru svo að ávaxta gull og silfursjóðina sem þeir höfðu í vörslu sinni og lána þá gegn vöxtum. Þannig þróaðist bankastarfsemi smátt og smátt. Kvittanir gullsmiðanna nutu það mikils trausts að þær gengu manna á milli í viðskiptum í stað gulls og silfurs. Síðan varð varsla sjóða og lánastarfsemi að aðalumsvifum margra gullsmiða, smíðavinna þeirra lagðist af og þeir snéru sér alfarið að bankastarfseminni..

Gullsmiðir urðu bankamenn og aðlöguðu hegðun sína að þeim kröfum sem til þeirra voru gerðar. Traust, var grunnurinn sem bankareksturinn byggðist á. Fólk treystir bönkum fyrir fjármunum sínum og treystir þagmælsku þeirra því að enginn vill að upplýsingar um fjárhagsstöðu þeirra séu bornar á torg. Bankastarfið hefur allar götur síðan þróast með þessi tvö grundvallarhugtök, traust og þagmælsku, að leiðarljósi. Við hafa bæst ráðgjöf og ég vil segja umhyggja. Fáir gera sér ljóst hve mikil sálusorgun getur falist í starfi bankamannsins. Fyrir mörgum árum var ég á námskeiði hjá stórum banka í Bandaríkjunum. Forstöðumaður námskeiðsins var fyrrverandi prestur. Hann sagði okkur nemendunum að í bankanum störfuðu mjög margir fyrrverandi prestar. Þeir voru að bera saman bækur sínar um það, hvers vegna þeir hefðu valið bankastarfið og kom saman um að það væri vegna þess hve bankamenn væru mikið að fást við persónuleg vandamál fólks ekki ólíkt preststarfinu.

Ef taka ætti saman þá kosti sem hinn fullkomna bankamann ætti að prýða, þá væri það að mínu mati þannig: Hann á að vera traustur, þagmælskur, talnaglöggur, raunsær, gagnrýninn, prinsippfastur, tillögugóður og umhyggjusamur um hag viðskiptavina sinna.

Ég hóf störf í Búnaðarbanka Íslands árið 1956. Um líkt leyti réðist hópur ungs fólks í bankann enda talsverður uppgangur í starfsemi Búnaðarbankans á þessum árum. Þetta unga fólk fékk starfsþjálfun undir aga eldri kynslóðarinnar sem fyrir var í bankanum. Gömlu bankamennirnir innprentuðu okkur öguð vinnubrögð með hagsmuni bankans og viðskiptavinarins að leiðarljósi. Síðar urðu margir úr þessum nýliðahópi burðarásar í yfirmannahópi Búnaðarbankans, allt til þess að bankinn sameinaðist Kaupþingi árið 2003. Ég starfaði sem bankamaður til ársins 1977 þegar ég hvarf til annarra starfa í 15 ár, kom síðan aftur til starfa í bankanum árið 1993 og var þar til starfsloka vegna aldurs árið 2004.

Á árunum eftir aldamótin gjörbreyttust öll viðhorf til bankastarfsemi. Nýtt fólk kom inn, sprenglært beint frá prófborðinu og þurfti ekki að læra af þeim sem fyrir voru í bankanum. Gömlu gildin hopuðu fyrir nýjum starfsháttum. Ég held að það hafi aðallega verið tvennt sem breytti viðhorfi starfsfólksins til bankastarfsins. Í fyrsta lagi var aðgangur að fjármagni svo auðveldur á alþjóðlegum markaði að ekki þurfti að sækjast svo mikið eftir innlánsfé á innanlandsmarkaði og í öðru lagi byggðist starfið í útibúunum fyrst og fremst á því að selja ýmsa þjónustuþætti bankans og fá bónus fyrir árangurinn. Þegar bankamaðurinn er fyrst og fremst orðinn sölumaður og hefur hag af því að viðskiptavinurinn kaupi sem mest, verður umhyggjan fyrir viðskiptavininum ekki eins afgerandi. Við gömlu bankamennirnir hvöttum ekki til spákaupmennsku og við predikuðum að fólk ætti aldrei að kaupa hlutabréf á krít. Hlutabréf eru keypt fyrir peninga sem fólk vill ávaxta til langs tíma, en er jafnframt viðbúið því að þau lækki í verði og geti jafnvel tapast alveg.

Þagmælska um hagi viðskiptavinanna og viðskipti þeirra er fyrsta boðorð bankamannsins. Fæstir gera sér grein fyrir því hve mikilvægt er að fullkominn trúnaður ríki milli bankamannsins og viðskiptavina bankans hvort sem það eru einstaklingar eða fyrirtæki. Tengsl bankamannsins eru lík tengslum kaþólsks prest við sóknarbarn sitt í skriftastólnum. Það á að vera óhætt að segja honum allt án þess að það fari lengra. Menn þurfa að geta lagt spil sín á borð í bankanum án þess að þurfa að óttast að sú vitneskja berist annað. Lög um bankaleynd eru sett í öllum þróuðum löndum og ekki að ófyrirsynju. Reglan hefur alls staðar verið að bankastarfsmönnum sé óheimilt að upplýsa um hagi viðskiptavina sinna. Reglur eru aftur misstrangar á milli landa um hvaða upplýsingar bankamönnum ber að gefa yfirvöldum ef eftir er leitað. Nú heyrast kröfur meðal almennings um að afnema beri bankaleynd. Það er mjög óraunhæft. Þeir sem þekkja til innviða bankastarfsins vita hve mikilvægt það er, að gott trúnaðarsamband sé á milli viðskiptavinarins og bankamannsins. En bankamaðurinn verður að vera trúnaðarins og traustsins verður bæði gagnvart viðskiptavininum og gagnvart yfirvöldum að hann hvetji ekki til eða stuðli að lögbrotum. Heyrst hafa þær raddir að bankaleyndinni sé um að kenna að útlánamisferlið gat átt sér stað innan bankanna og nú þurfi allt að vera uppi á borðinu og bankaleynd aflétt til þess að slíkt komi ekki fyrir aftur. Þessi hugsun er svo algerlega óraunhæf að það vekur furðu að hún skuli sett fram.

Bankastarfsmenn hafa nú glatað orðspori sínu sem heiðarlegir og traustir hagsmunaverðir viðskiptavina sinna. Það að einungis 7% aðspurðra beri traust til bankakerfisins eru skelfilegar fréttir ekki aðeins fyrir bankana heldur íslenskt viðskiptalíf í heild. Úr þessu verður að bæta. Það verður að byggja upp bankastofnanir sem hafa aðeins það hlutverk að ávaxta fjármuni viðskiptavina sinna og lána þá út í skynsamlegar fjárfestingar og rekstur. Bankastarfsemi í sinni hreinustu mynd. Allt brask og spákaupmennska hverfi í annarra hendur. Það verða að vera til bankar þar sem gömlu gildin, traust og trúnaður eru höfð að leiðarljósi. Í gegnum aldirnar, gegnum ótrúlegar þjóðfélagsbreytingar og byltingar, hafa bankar haldið uppi starfi á þessum grunni af því að þjóðfélagið hafði þörf fyrir þannig þjónustu. Sú þörf er enn fyrir hendi og við henni þarf að bregðast þannig að sátt sé um. Ég tel það hafa verið mikið óheillaverk þegar bönkum var leyft að reka verðbréfaviðskipti. Bankar sem búa yfir innstu trúnaðarupplýsingum viðskiptavina sinna geta ekki verið að versla með hlutabréf þeirra eða keppinauta þeirra. Það er aldrei hægt að byggja fullkomlega helda eldveggi á milli bankastarfseminnar og verðbréfaviðskiptanna.


Um bloggið

Gunnar Már Hauksson

Höfundur

Gunnar Már Hauksson
Gunnar Már Hauksson
Gunnar Már er fyrrverandi bankamaður

Bloggvinir

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • ...2008_292

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband